Jafnréttisáætlun


Jafnréttisáætlun Framhaldsskólans á Húsavík 2020-2023.

Útgáfudagur: 17.01.2020

Útgáfa: 1.0

Samþykkt: Jafnréttisstofa

1. Inngangur

Í 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er kveðið á um að öll fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn skuli setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Þrátt fyrir að við Framhaldsskólann á Húsavík starfi færri en 25 manns leggur skólinn áherslu á að jafnréttissjónarmið séu höfð að leiðarljósi í öllu starfi hans og vill setja starfsfólki sínu og nemendum gott fordæmi í þessum efnum.

Jafnréttisáætlun Framhaldsskólans á Húsavík er mótuð í samræmi við jafnréttislögin nr. 10 árið 2008. Markmið hennar er að stuðla að jafnrétti kynja í skólanum, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan skólans, ennfremur að minna stjórnendur, nemendur og starfslið skólans á mikilvægi þess að allir fái notið hæfileika sinna án tillits til aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumáls, ætternis, þjóðernis eða annarra þátta sem kunna að greina einn einstakling frá öðrum. Líkt og fram kemur í menntasýn FSH er í skólanum lögð áhersla á að:

. . . nemendur öðlist dýpri skilning á hugtökum á borð við frelsi, jafnrétti og systkinalag með því að þeir fái frelsi til að tjá skoðanir sínar og taka ákvarðanir um nám sitt, hafi jöfn tækifæri til þátttöku og áhrifa án tillits til félags- og efnahagslegrar stöðu, hæfni, reynslu, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, trúarafstöðu, kynþáttar eða þjóðernis. Að nemendur efli samskiptahæfni sína með því að vinna með öðrum að fjölbreyttum viðfangsefnum, læri að leysa úr ágreiningi, vinni gegn mismunun og einelti, öðlist meiri sjálfsaga og taki ábyrgð á eigin gerðum.

Jafnréttisstefna er því ekki aðeins bundin við kynjajafnrétti heldur ýmsa aðra þætti sem kunna að skapa mun á milli einstaklinga. Mikilvægt er að bæði nemendur skólans og starfsfólk séu upplýst um jafnréttisstefnu skólans og fylgi henni í hvívetna.

Við FSH starfar jafnréttisfulltrúi. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi í skólanum og að jafnréttisstefnu skólans sé framfylgt. Jafnréttisfulltrúi sendir Mennta- og menningarmálaráðuneyti árlega greinargerð um jafnréttisstarf skólans sbr. 13. gr. laga um jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir jafnréttisáætlun Framhaldsskólans á Húsavík í nokkrum hlutum. Kafli 2 snýr að starfsfólki skólans en kafli 3 að nemendum. Í kafla 4 er svo gerð grein fyrir framkvæmd og eftirfylgd jafnréttisstefnunnar.

 

2. Starfsfólk

Framhaldsskólinn á Húsavík telur mikilvægt að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum bæði kvenna og karla. Í öllu starfi skólans skal unnið markvisst gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar karla og kvenna. Í starfsmannastefnu skólans, sem aðgengileg er á heimasíðu hans, er skýrt kveðið á um mikilvægi þess að starfsfólk virði jafnréttisstefnuna og vinni í anda hennar.

Ráðningar og starfsauglýsingar

Jafnréttissjónarmið skulu höfð að leiðarljósi til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður við skólann. Í auglýsingum um laus störf við skólann skal vísað í jafnréttisstefnu skólans, störf skulu þar vera ókyngreind og höfða jafnt til beggja kynja. Stefnt skal að því að í hópi starfsfólks sé fjöldi karla og kvenna sem jafnastur. Gæta skal þess að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis við úthlutun verkefna eða þegar teknar eru ákvarðanir um framgang í störfum. Jafnframt skulu bæði kyn njóta sömu tækifæra til að axla ábyrgð.

Launakjör

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Kynjajafnréttis skal gætt við úthlutun hvers konar þóknunar og hlunninda, beinna og óbeinna. Einnig skulu kynin njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris- orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár.

Þátttaka í nefndum og ráðum

Stefnt skal að því að fjöldi karla og kvenna í nefndum og ráðum á vegum skólans sé sem jafnastur.

Endurmenntun og starfsþjálfun

Starfsfólki skulu tryggðir möguleikar til endurmenntunar og starfsþjálfunar óháð kyni. Leitast skal við að höfða til beggja kynja í tilboðum er lúta að starfsþjálfun og endurmenntun.

Áætlanagerð og rekstur

Við áætlanagerð fyrir skólann skal sérstaklega hugað að kynjasjónarmiðum við forgangsröðun verkefna og skiptingu fjármuna. Þegar þörf er hagræðingar í rekstri skólans skal jafnréttis- og kynjasjónarmiða gætt. Huga þarf að því að við slíkar aðgerðir halli ekki á annað kynið.

Samræming fjölskyldulífs og vinnu

Starfsfólki Framhaldsskólans á Húsavík skal gert kleift að samræma fjölskyldulíf og vinnu, meðal annars með sveigjanlegum viðverutíma í skólanum. Starfsfólki af báðum kynjum skal gert kleift að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum barna, maka eða foreldra. Ekki skal líta á það sem mismunun að tekið sé tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar.

Einelti, kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni

Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Einelti er ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður. Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Veita skal starfsfólki fræðslu um einelti og kynferðislega og kynbundna áreitni til að stuðla að því að allt starfsfólk verði meðvitað um slík málefni, geti greint þau og brugðist við þeim þegar þau koma upp. Verði starfsfólk uppvíst að ósæmilegri framkomu í garð samstarfsfólks, s.s. einelti, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni teljast þeir brotlegir við grundvallarreglur um samskipti á vinnustað. Slíkt getur leitt til áminningar og jafnvel uppsagnar sbr. 21. grein laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ef starfsmaður telur að brotið sé gegn jafnréttissjónarmiðum innan Framhaldsskólans á Húsavík, eða þarfnast ráðgjafar um meðferð jafnréttismála innan skólans, skal hann leita til skólameistara eða jafnréttisfulltrúa og finna málinu farveg í samvinnu við hann. Þessar upplýsingar skulu jafnframt vera aðgengilegar í skipuriti skólans.

 

3. Nemendur

Samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskóla skal menntun í jafnrétti vera einn af grunnþáttum menntunar í íslenskum framhaldsskólum. Í Aðalnámskrá segir: „Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis“ (bls. 15).

Í Aðalnámskrá segir ennfremur: „Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks“ (bls. 15).

Í ljósi þessa þarf að skoða eftirfarandi atriði sérstaklega:

Líðan og árangur

Skólinn leitast við það í öllu sínu starfi að koma til móts við áhuga og þarfir nemenda sbr. hér að framan. Jafnframt er lögð áhersla á að starfsfólk skólans beri ábyrgð á uppeldislegum samskiptum sínum við nemendur með því að sýna þeim virðingu, umhyggju, velvild, aðhald og þolinmæði og

vænta ætíð árangurs. Lögð er áhersla á að nemendum líði vel og að þeir sýni framfarir og nái árangri á sem flestum sviðum. Kanna þarf með reglubundnum hætti líðan nemenda og viðhorf þeirra til skólans og starfsemi hans. Þá er einnig mikilvægt að skoða einkunnir nemenda og greina árangur þeirra í námi eftir kyni. Ef í ljós kemur verulegur munur á líðan, viðhorfum eða árangri nemenda eftir kyn þeirra þarf að grípa til sérstakra aðgerða með það fyrir augum að staða kynjanna verði sem jöfnust. Hér gæti m.a. komið til greina að breyta kennsluháttum, námsefni, samsetningu námshópa og/eða auka tímabundið stuðning við nemendur.

Námsefni

Allar námsgreinar tengjast jafnrétti beint og óbeint. Kennarar verða að vera vakandi fyrir því hvort kennsluefni byggist á jafnréttishugmyndum með því að skoða og meta það út frá jafnréttissjónarmiðum. Skoða þarf viðfangsefni skólastarfsins út frá sem flestum sjónarhornum og nota ólíkar heimildir s.s. að vitna í sérfræðinga af báðum kynjum.

Kennsluhættir

Kennsluhættir þurfa að vera fjölbreyttir og þannig leitast við að sem flestir nemendur nái að tileinka sér þau viðfangsefni sem til umræðu eru hverju sinni. Mikilvægt er að hópaverkefni séu sem mest unnin í kynjablönduðum hópum. Þannig er líklegast að bæði kynin fái kennslu við hæfi og ólík reynsla og gildismat fái notið sín. Jafnréttisfræðslu þarf að samþætta námi og kennslu í sem flestum áföngum. Huga þarf sérstaklega að jafnréttisfræðslu í lífsleikni fyrir nýnema svo tryggt sé að stefnumið skólans í jafnréttismálum komi skýrt fram strax í upphafi náms við Framhaldsskólann á Húsavík. Gæta þarf hlutlægni bæði í umræðum og námsefni og benda nemendum á leiðir til að koma

auga á og vinna gegn misrétti. Þar má t.d. hafa í huga atriði eins og aldur, búsetu, fötlun, kyn, kynhneigð, litarhátt, lífsskoðun, menningu, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni eða annað sem kann að aðgreina einn einstakling frá öðrum.

Tómstundastarf og nemendaráð

Hafa þarf að leiðarljósi að hlutur kynjanna sé sem jafnastur í þátttöku nemenda í nemendaráði. Einnig þurfa kynjahlutföll að vera sem jöfnust í öðru tómstundastarfi, s.s. nefndum og klúbbum skólans, spurningaliði og yfirleitt þar sem nemendur koma fram fyrir skólans hönd. Við gerð skólablaðsins skal þess sérstaklega gætt að kynjunum sé gert jafnhátt undir höfði, bæði í vinnu við blaðið og í allri umfjöllun sem þar kemur fram.

Stoðþjónusta

Meta þarf stoðþjónustu skólans með reglulegu millibili. Með stoðþjónustu er átt við náms- og starfsráðgjöf, aðstoð við nemendur með sértæka námsörðugleika, aðstoð við nemendur með fötlun, aðstoð í tölvuveri, þjónustu á bókasafni, þjónustu hjúkrunarfræðings og ýmis önnur úrræði sem skólinn stendur fyrir.

Sveigjanleiki gagnvart eldri nemendum og nemendum sem eiga börn

Framhaldsskólinn á Húsavík leggur áherslu á að koma til móts við eldri nemendur og barnafólk m.a. með sveigjanlegum reglum um skólasókn.

Aðbúnaður nemenda með fötlun

Í allri endurskipulagningu á húsnæði skólans skal leitast við að hlúa sem best að nemendum með fötlun m.t.t. aðstöðu til náms, undirbúnings, tölvunotkunar, mataraðstöðu og salernisaðstöðu. Taka skal tillit til sértækra þarfa hvers og eins nemenda á hverjum tíma.

Einelti, kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni

Allir nemendur eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Líkt og fram kemur í 2. kafla jafnréttisáætlunarinnar er einelti

ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess

sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður. Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Gera þarf nemendum ljóst að einelti, kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni er ekki liðin við Framhaldsskólann á Húsavík, hvort sem hún er af hálfu starfsmanns gagnvart nemanda, af hálfu nemanda gagnvart starfsmanni eða á milli nemenda. Hér þarf sérstaklega að hafa í huga þær leiðir sem tæknin hefur í för með sér, s.s. í gegnum tölvu eða síma. Um meðferð mála má lesa nánar í skólareglum sem aðgengilegar eru á heimasíðu skólans.

Kynhneigð

Starfsfólk Framhaldsskólans á Húsavík skal gæta þess að gera ráð fyrir að nemendur hafa mismunandi kynhneigð. Mikilvægt er að þetta sé haft í huga í námi, kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.

Telji nemandi að brotið hafi verið gegn jafnréttisstefnu innan Framhaldsskólans á Húsavík, eða vill fá ráðgjöf um meðferð jafnréttismála innan skólans, getur hann leitað til skólameistara, jafnréttisfulltrúa, námsráðgjafa eða umsjónarkennara og fundið málinu farveg.

 

4. Framkvæmd og eftirfylgd jafnréttisstefnu

Jafnréttisstefna er lifandi verkefni og þarf að vera í stöðugri þróun. Líta má á jafnréttisáætlun sem viljayfirlýsingu um að jafnréttissjónarmið séu höfð að leiðarljósi í öllu skólastarfi. Líkt og fram kemur í inngangi gerir jafnréttisfulltrúi árlega grein fyrir því hvort jafnréttisstefnunni hafi verið framfylgt og gerir athugasemdir þegar þurfa þykir. Á tveggja ára fresti er æskilegt að endurskoða áætlunina í heild sinni meðal annars með tilliti til breytinga í skólastarfi og lagabreytinga og gera þær ráðstafanir sem þarf til að nemendur og starfsfólk skólans njóti samstarfs og samneytis á grundvelli jafnréttis. Það er á ábyrgð skólameistara að jafnréttisstefnu sé fylgt í hvívetna og hann skal sjá til þess að í skólanum ríki sú skólamenning sem endurspeglar þann fjölbreytta hóp sem þar starfar.